Fari það í fúlan pitt !!!

John og Miriam vinafólk okkar frá Malasíu voru orðin þreytt á lífinu og tilverunni í Kuala Lumpur og spurðu mig hvort það væri ekki hægt að fá einhverja vinnu á Íslandi, einhversstaðar fjarri ys og þys borgarinnar? Ég þekki aðeins til á Egilsstöðum og gaf þeim númer hjá vinnumiðlun Austfjarða. John fékk vinnu með það sama við Verkfræðistofu Austfjarða og Miriam fékk vinnu í Bakaríinu enda er hún bakari að mennt. Þau fluttu svo upp á klakann í byrjun september í fyrra. Eitthvað voru þau samt ósátt, eða aðallega John en ég tók mig til og þýddi bloggfærslurnar hans á netinu og set þær hérna inn að neðan. Þau gista hjá okkur núna en eru á leið til Marokkó á morgun.  

 

5. Sept 2007

Fluttum til Íslands í gær til að vinna. Settumst að fyrir austan, á Egilsstöðum. 
Ég er svo gríðarlega spenntur. Það er svo fallegt hérna og fjöllin eru dýrleg. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig þau líta út í vetur þegar það fer að snjóa.

11. Október 2007

Ísland er sko fallegasta land í heimi. Laufin eru öll rauð og appelsínugul í Hallormsstað. Svo sáum hreindýr í dag. Þau eru svo guðdómlega falleg. Það er svo kyrrlátt   hérna, algjör paradís. Ég ætla sko að búa hérna það sem eftir er.


13. Nóvember 2007

Bráðum byrjar hreindýra veiðitímabilið. Ég get ekki ímyndað  mér að einhver vilji drepa þessi fallegu dýr. Vona líka að það fari að snjóa fljótlega. Ég bara elska þetta land.


17. Nóvember 2007 

Það snjóaði loksins í nótt og þegar ég vaknaði var allt orðið hvítt. Þetta   er eins og jólakort. Við fórum út og hreinsuðum snjóinn af tröppunum og mokuðum innkeyrsluna. Fórum í snjóbolta slag (Miriam vann reyndar ég ég næ henni síðar). Þegar snjóruðningstækið kom og ruddi götuna, þurftum við reyndar að moka innkeyrsluna aftur. Ég elska samt Ísland!


21. Nóvember 2007 

Meiri snjór í nótt. Snjóruðningstækið lék sama leikinn með  innskeyrsluna okkar, ég var ekki alveg sáttur en það er fínt að vera hérna.


16. Desember 2007 

Enn meiri snjór í nótt. Komst ekki út úr innkeyrslunni og í vinnuna. Það er fallegt hérna, en ég er orðinn ansi þreyttur á að moka snjó. Helvítis snjóruðningstæki.


21. Desember 2007 

Meira af þessu hvíta drasli féll í nótt. Ég er kominn með blöðrur í lófana og illt í bakið af öllu þessu moki. Ég held að gaurinn á snjóruðningstækinu bíði við hornið þar til ég er búinn að moka innkeyrsluna. Helvítis asninn.


24. Desember 2007 

Gleðileg Jól, eða þannig! Enn meiri andskotans snjór. Ef ég næ í helvítis fíflið sem keyrir snjóruðningstækið, þá sver ég að ég drep helvítið. Af hverju salta þeir ekki helvítis göturnar hérna meira.


15. Janúar 2008 

 Meiri hvítur skítur í nótt. Búinn að vera inni í þrjá daga. Bíllinn er fastur undir heilu fjalli af snjó sem fíflið á ruðningstækinu er búinn að ýta að innkeyrslunni okkar. Veðurfræðingurinn spáði 20 cm jafnföllnum snjó næstu nótt. Vitið þið  hvað það eru margar skóflur?


17. Janúar 2008 

Helvítis veðurfræðingurinn hafði rangt fyrir sér. Við fengum 35 cm af hvítaskít í þetta skipti. Ef það heldur svona áfram þá bráðnar þetta drasl ekki fyrr en um mitt sumar. Snjóruðningstækið festi sig í götunni og helvítis fíflið kom og spurði hvort ég gæti lánað honum skóflu.  Eftir að hafa sagt honum að ég væri búinn að brjóta sex í vetur við að moka í burtu snjónum sem hann ýtti jafnóðum inn í innkeyrsluna, munaði minnstu að ég bryti eina enn á hausnum á honum.


20. janúar 2008 

Komst loksins út úr húsi í dag. Fór í búðina að versla og á leiðinni til baka hljóp hreindýr fyrir bílinn. Skemmdir upp á tugi þúsunda. Vildi að þessum helvítis kvikindum hefði verið útrýmt síðasta haust.


25. janúar 2008

Fór með bílinn á verkstæði í bænum. Ótrúlegt hvað þetta ryðgar af öllu þessu saltdrasli sem þeir strá á vegina.

2. Febrúar 2008

Jæja við erum búin að pakka öllu niður og ætlum að flytja til Marokkó. Skil ekki að nokkur maður með viti skuli vilja búa á skítaskeri eins og Íslandi! Ég hata þetta land og ef ég sé svo mikið sem snjókorn aftur í þessu lífi þá veit ég ekki hvað ég geri...en það verður ekki fallegt. Ísland, farðu í fúlan pitt. 

 

Kveðja

Jac


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég verð bara að spyrja: Hvenær kemur bókin?

Gunnar Helgi Eysteinsson, 3.2.2008 kl. 18:40

2 Smámynd: Jac Norðquist

Það skyldi þó aldrei vera að það væri "Bók" í burðarliðnum Gunnar

Kveðja

Bói

Jac Norðquist, 4.2.2008 kl. 08:04

3 Smámynd: Páll Jóhannesson

Metsölubók

Páll Jóhannesson, 4.2.2008 kl. 22:07

4 Smámynd: Þórunn Óttarsdóttir

minnir aðeins á ferlið í "kæri jóli, dagur eitt"  

Þórunn Óttarsdóttir, 5.2.2008 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband