Grenjað í Varðstjóranum !!!

Jæja þá er þessi dagur að miðnætti kominn og gott betur. Verkefnadæmið gengur bara þokkalega og verður skilun á gagnrýni og vörn á því á föstudag en ekki á morgun eins og planið hljóðaði uppá. Það gerir það að verkum að við getum ekki náð í Karen og Bjarka á Kastrup eins og við höfðum áætlað en þau taka í staðinn lestina til Odense og næ ég í þau á stöðina í staðinn :)

Talandi um stöð....

Ég var rétt um sjö ára þegar sá yngsti af þremur eldri bræðrum mínum kemur til mín og segir... Það er ekki mönnum bjóðandi að við skulum ekki eiga hjól eins og önnur börn hér í hverfinu. Ég leit stórum augum á hann og benti honum á að mamma væri nú ekki fædd með silfurskeið í munni og þyrfti fyrir sex börnum að sjá og hjól væri nú munaðarvara sem væri skattlögð sem lúxusvarningur á Íslandi en ekki nauðsynjavara eins og til dæmis í Kínverska alþýðulýðveldinu og væru reyndar framleidd þar fyrir innanlandsmarkað meðan reiðhjólaframleiðslan hér væri einskorðuð við samanbarning Auðuns Hálfdáns í Bratta Múla á hinum ýmsustu hjólapörtum og ekki öllum endilega tryggilega fest saman svo úr urðu oft hin mannskæðustu reiðhjólaslys íslandssögunnar.

Hann horfði á mig og hristi hausinn, djöfull ertu skrítinn skrúfa maður ! Heyrðu ég var alveg búinn að gleyma hvað ég ætlaði að biðja þig um..... shit !

Við vorum að ræða vöntun á reiðhjólum og þú virtist vera með einhverja ímyndaða lausn á þeim vanda bróðir, sagði ég og lét ekkert slá mig af laginu, þrátt fyrir bágan fjárhag móður okkar og þá staðreynd að hún útivinnandi konan skuli, vegna hins einkennilega skattaumhverfis á Íslandi á þessu herrans ári 1976, ekki hafa efni á að bera lúxusvarning í öll sex börnin sín. Þannig að mér finnst þú eigir að skammast þín og ekki láta hana nokkurn tíman vita þessar óraunsæju langanir þínar í hjólhest !

Augun ætluðu úr höfðinu á honum og munnurinn gapti !! Shit maður, hvað í andskotanum ertu búin að vera taka inn ? Ertu á einhverju við þessari djöfuls menntamunnræpu? Gerirðu þér grein fyrir að þú ert sjö ára tappi og ættir kannski bara að fara að tala eins og þú sért sjö en ekki sjö að verða 37 !

Jæja, haltu nú aðeins kjafti og komdu, ég ætla að redda okkur hjólum...frítt !

Leiðin lá á Lögreglustöð litla bæjarfélagsins sem við bjuggum í og bróðir minn opnaði varlega hurðina. Sko, hvíslaði hann að mér, þú verður að grjót halda kjafti og það má ekki heyrast múkk frá þér...skilið? Svo segir hann hærra við skrifstofudömuna "Getum við fengið að tala við varðstjóra"? Spurði hann og röddin kjökraði og augun fylltust af tárum. Mér varð svo um að í staðinn fyrir að setjast eins og skrifstofukonan benti okkur á að gera, labbaði ég á klósetthurðina, tvisvar. Bróðir minn tók í öxlina á mér og lét mig setjast. Varðstjórinn kom fram úr skrifstofunni sinni og spurði okkur hvort og hvað hann gæri aðstoðað okkur með. Ja sko sagði bróðir minn, tárin láku óheftað núna, við við snökkt snöggt, það var stolið frá okkur hjólunum okkar í síðasta mánuði og vegna hárra skatta getur mamma ekki fætt okkur öll sex með silfurskeið því að kínverjarnir búa sjálfir til hjólin sín nema hann Auddi í Bratta Múla hann gerir ekki nein lúxus hjól en bara einhver manndrápshjól og og....

.... hann grét sáran... svo sárt að ég táraðist með honum. Varðstjórinn vissi ekki hvaðan á hann veðrið stóð og bara settist niður... Ha ? Hvað ertu að reyna að segja mér? En málið var að nú var bróðir bara farinn að skæla fyrir alvöru því að ef maður byrjar á einhverju svona dramatísku eins og að væla frá sér ráð og rænu...er ekki svo auðvelt að stoppa það þið vitið.

Með tárin í augunum sjálfur, tók ég af skarið og reyndi að klára það sem að bróðir hafði byrjað á.... sko hjólunum okkar var stolið og einhver sagði að þið væruð með hjól sem hafa fundist á víðavangi, megum við vinsamlega athuga hvort hjólin okkar séu þar á meðal? Já já það er sko meira en sjálfsagt, sagði varðstjórinn, benti svo á bróðir sem grét nú öllu hærra en áður, en hvað er að honum, af hverju hættir hann ekki að væla? Meðan við gengum allir þrír út og fyrir hornið þar sem að tapað og fundið geymslan var, útskýrði ég fyrir honum að bróðir hefði fæðst sitjandi með naflastrenginn vafinn um hálsinn og það hefði sennilega orsakað vissan súrefnisskort í fremri heila svo hann ætti erfitt með tilfinningar og allt rót á þeim gæti komið honum í mikið uppnám. Jaaa ég skil, sagði Löggi lágt og hristi hausinn.

Hann opnaði geymsluna og bauð okkur inn. Þar blasti við okkur feiknin öll af hinum ýmsasta varningi og fullt af reiðhjólum. Ég benti varðstjóranum á tvö hjól sem litu þokkalega vel út og virtust henta okkur bræðrum ágætlega í stærð. Þetta eru okkar hjól sagði ég og það var ekki laust við að röddin titraði örlítið, en varðstjórinn hefur varla tekið eftir því vegna látanna í bróðir mínum...guð hvað hann gat grátið hugsaði ég og var að verða nett pirraður á vælinu. Það var greinilega varðstjórinn líka því hann dró hjólin fram með leyfturhraða og nánast fleygði okkur út með hjólin undir hendinni..... Passið svo upp á að læsa þeim næst drengir, sagði hann og kvaddi okkur.

Eftir að við höfðum hjólað á nýju hjólunum okkar upp næstu hliðargötu, hætti bróðir að væla, þurrkaði tárin og leit á mig og sagði hátt og snjallt..... Shit hvað ég náði að plata hann með vælinu !!!

Kveðja

JGN


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga skjol

HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA Þú ert alveg óborganlegur þegar þú byrjar,reyndar hefur þú aldrei hætt þessi tæpu 12 ár sem ég er búin að þekkja þig,en endilega haltu áfram þetta er FRÁBÆRT.

KV Helga mágkona. 

Helga skjol, 24.1.2008 kl. 13:37

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þú ert frábær penni.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 24.1.2008 kl. 16:30

3 Smámynd: Páll Jóhannesson

Er þetta ekki örugglega allt satt?

Páll Jóhannesson, 24.1.2008 kl. 23:51

4 Smámynd: Jac Norðquist

Það er neflilega mikill sannleikur í þessu Palli !! Merkilegt nokk  

Jac Norðquist, 25.1.2008 kl. 07:25

5 Smámynd: Páll Jóhannesson

Ábyggilega meir en mig grunar, þú ert nú ekki vanur að krydda hlutina  kveðja

Páll Jóhannesson, 25.1.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband