Vont veður og Halalaus halastjarna !!
Föstudagur, 9. nóvember 2007
Það er bara stormur í kortunum í dag og komin viðvörun "Orange" fyrir allt landið. Það á að þýða snælduvitlaust veður en við sem höfum búið hér vitum auðvitað að DMI eða Danska veðurstofan hefur aaaaldrei rangt fyrir sér !Það verður samt einkar fróðlegt að sjá hvort þeir hafi rétt fyrir sér að þessu sinni því ég sá svipaða mynd á þýsku stöðinni og þeim bara nokkuð vel saman. Ég held nefninlega að þýskararnir séu að kenna DMI sitt lítið um veður og lægðardrög.
Þetta hér að ofan skrifaði ég í morgun, en ákvað að bíða með að birta það og sjá hvernig þetta blessaða veður þróaðist.... skemmst frá því að segja að hér í Odense bærðist varla hár á höfði, en á Stórabeltisbrúnni valt vörubíll í einni hviðunni ! Eða var hann bara fullur ?
Það er Verkefnavika hjá mér í skólanum og er ég búinn að vera upp að öxlum í verkefnavinnu. Það er búið að ganga rosalega vel þrátt fyrir að ég hafi fengið eina verstu grúppuna til liðs við mig.... það héldu og halda reyndar allir ennþá nema hvað að grúppan mín er bara búin að standa sig frábærlega ! Við erum búin að klára Project A með stæl !!! Ég verð afar hissa ef við náum ekki þokkalegri einkunn fyrir það.
Við hjónin stóðum úti á palli í gærkvöld og vorum að horfa sem oftar á stjörnurnar. Ég benti Guðbjörgu á hala-lausu halastjörnina en Þessa dagana er óvenjuleg halastjarna sýnileg á himni. Halastjarna þessi, sem kennd er við Holmes, fannst árið 1892 og gengur um sólina milli brauta Mars og Júpíters. Að jafnaði er hún svo dauf að hún sést ekki nema í öflugustu sjónaukum. Hinn 24. október blossaði hún skyndilega upp svo að ljósmagnið jókst nær milljónfalt, frá birtustigi 17,5 til 2,5 eða þar um bil. Halastjarnan er stödd í stjörnumerkinu Perseusi, skammt frá björtustu stjörnunni í merkinu og er alltaf ofan sjónbaugs á Íslandi og Danmörku. Hún sést auðveldlega með berum augum, en fljótlegra er að finna hana með litlum handsjónauka. Fyrri hluta kvölds er hún í norðaustri til austurs, hátt á lofti. Í sjónauka sést ljóshnoðri, og er það haddurinn (coma), rykhjúpur sem umlykur kjarnann. Haddurinn fer stækkandi og er hann bara um milljón kílómetrar í þvermál !!! Enginn hali hefur sést enn sem komið er, en þess ber að gæta að halinn stefnir ávallt frá sól, og í þessu tilviki færi hann nærri sjónlínu, bak við halastjörnuna. Ekki er vitað hvernig stendur á hinni gríðarlegu birtuaukningu, en saga halastjörnunnar er frekar athyglisverð finnst mér.
Það var Englendingurinn Edwin Holmes sem uppgötvaði þessa halastjörnu. Hún var áður fyrr skráð undir heitinu 1892 III eða 1892 h, en í núgildandi skráningarkerfi heitir hún 17P/Holmes þar sem P merkir umferðarhalastjörnu (e. periodic comet), þ.e. halastjörnu sem sést hefur oftar en einu sinni, og talan 17 merkir að hún sé sú sautjánda þeirrar tegundar. Þegar Holmes fann hana var hún álíka björt og Andrómeduþokan, á bilinu 3-4 að birtustigi, en dofnaði ört á næstu vikum. Í fyrstu sást lítill hali, og um tíma sást aukahnoðri utan við haddinn og kjarninn sýndist klofinn. Fljótlega dofnaði halastjarnan og varð of dauf til að sjást með berum augum, en um miðjan janúar 1893 blossaði hún upp aftur, og var þá hægt að greina hana án sjónauka í eina eða tvær vikur. Umferðartími hennar um sól er um það bil sjö ár, og hún sést best þegar hún er næst jörðu. Hún sást næst árið 1899 og aftur árið 1906, en í bæði skiptin var hún afar dauf og greindist aðeins í góðum sjónaukum. Síðan týndist hún og fannst ekki aftur fyrr en eftir mikla leit og útreikninga árið 1964. Eftir það hafa menn séð hana á sjö ára fresti, en hún hefur verið afar dauf þar til nú, að hún blossar upp á nýjan leik eftir öll þessi ár.
Braut halastjörnunnar Holmes er ekki hringlaga; minnsta fjarlægð hennar frá sól er 2,1 stjarnfræðieining en mesta fjarlægð 5,2 stjarnfræðieiningar. Brautin er talsvert breytileg vegna truflana frá reikistjörnunni Júpíter. Fjarlægð halastjörnunnar frá jörðu er sem stendur 1,6 stjarnfræðieining. Hún hreyfist hægt á himni og verður í stjörnumerkinu Perseusi næstu mánuði. Hér er svo mynd af fyrirbærinu
Ekkert smá falleg halalaus halastjarna, reyndar er halinn farinn að sjást aðeins og á eftir að koma betur í ljós síðar. (uppl. og mynd tekið af almanak háskólans)
Málsháttur: Oft fýkur í menn sem gera veður útaf öllu.
Kveðja
JGN
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sykurvíma :)
Miðvikudagur, 7. nóvember 2007
það var vaknað gríðarlega snemma á þessu heimili í morgun ! Ég var kominn á fætur rétt um klukkan 06:10 og það var græjað sig til fyrir Kaupmannahafnarferðina með Mömmu. Hún var á leið til Íslands eftir 10 daga frí hér hjá okkur... ja það er ekki rétt að segja frí, því kerla var flutt hingað út nauðug af konunni minni sem afmælisgjöf handa mér !!! Þeim tókst að koma mér algjerlega á óvart með þessu plotti ! Bara frábært hjá þeim. Þetta er líka ein skemmtilegasta afmælisgjöf sem ég hef fengið um dagana :) Ég ætla bara að þakka Mömmu og Guðbjörgu fyrir frábært afmæli og frábæra 10 daga afmælisveislu :) Nú erum við hjónin bara farin að líta í kringum okkur eftir AU-pair stúlku því að við erum komin á bragðið með að hafa svona kerlu sem að er sífellt með tuskuna á lofti :) Annars gekk bara vel að keyra til Köben í rokinu og við komumst á völlinn í tæka tíð. Mamma fór í vélina og ég renndi inn í Köben þar sem ég var búinn að frétta af búð sem selur íslenskt nammi, ég keypti fullan poka af góðgæti fyrir konuna mína og það er alveg dásamlegt hvað hún elskar mig mikið.... ja amk meðan hún er í sykurvímunni :)
Málsháttur: Lengi lifa gamlar hræður.
Kveðja
JGN
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Matselja Dauðans !!!
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Það voru skil á verkefni í skólanum í dag og gekk mér bara frekar vel. Ég er að minnsta kosti ánægður með verkefnið mitt. Svo var stóri Project A dagurinn en við grúppan mín fengum afhennt stóra verkefnið í dag við hátíðlega viðhöfn. Það verður engin kennsla alla vikuna vegna þessa verkefnis. Nú er bara að rúlla upp ermarnar á bolnum og taka til starfa, þetta er svona alvöru verkefni takk fyrir.
Kantínan er lokuð vegna forfalla. Aðalkokkinum henni Olgu var vísað úr landi í gær. Komið hafði í ljós að hún var viðriðin austurevrópska glæpastarfsemi sem gekk undir nafninu "Kill the cat" ! Hún var reyndar rekin úr þeim samtökum fyrir skömmu vegna þess að hún misskyldi verk sitt alvarlega og hreinlega slátraði köttum hvar sem í þá náðist... ja og eldaði sönnunargögnin í Kantínunni. Nei Kill the Cat var leyniorð yfir einhverja terrorista frá Kákasus sem mafían vildi losan við.... en Olga steig ekki alveg í vitið og .... já þið vitið allt um matselju dauðans.
Það voru "Áheyrnapróf" fyrir nýjan Matreyðslu-stjóra í Kantínunni okkar í dag. Ég gekk einmitt fram á fyrsta umsækjanda sem var í töluverðum vandræðum, þar sem hann stóð með vísifingur kyrfilega fastann í vinstri nasaholu og mátti sig hvergi hræra. Ég er hjálpsamur að eðlisfari og bauðst til að aðstoða hann. Nefmæltur þakkaði hann fyrir á SuðurJósku og hófst nú hamagangur á hóli. Ég byrjaði að toga ofur varlega í umræddan putta í umræddum ófærum í umræddu nefi á umræddu andliti.... og ekkert gerðist ! Hmmm ég er ekki vanur að láta deigan síga svo ég beitti meira afli í þetta sinn og togði duglega í putta-skömmina.... neibb, hann haggaðist ekki en það var greinilegt að Kokka-Kandídatinum var svona að verða örlítið órótt þegar hann sá að ég var orðinn rauður og þrútinn til augnanna... út skyldi helvítis puttin þótt ég þyrfti að höggva af hausinn við axlir og nota dýnamít !! Ég tók nú Kokkakjánann og hengdi hann upp á fatasnaga, tók svo báðum höndum í olnboga hægri handar Kokksins... en puttinn var einmitt festur við handarbak hægri handar hans og spyrnti mér með báðum fótum í vegginn að baki hans.... þannig hamaðist ég í smá tíma, másandi og blásandi, reynandi ekki að heyra ópin og óhljóðin í SuðurJóska Kokkakvikindinu, þegar stórt og mikið POPP heyrðist og út kom puttahelvítið.... og ó mæ god ! Ég er viss um að hann verður lengi að þrífa hauskúpu hringinn sinn eftir þessar hrottalegu blóðnasir....hver er svo með hring á vísifingri?
Ég var ekkert að bíða eftir að hann jafnaði sig til að þakka mér fyrir !
Mamma er hér ennþá og er það bara alveg frábært. Það er hreint yndislegt hvað kerla er hress og á köflum bara fyndin :) Það er sko augljóst hvaðan ég hef ekki húmorinn !!! Við skruppum í BILKA í dag og áttum þar góðar stundir. Ég verslaði fullt af fötum á strákana svo sem kuldaúlpur, peysur og flíspeysur. Einnig slæddist inn húfa og trefill á mig. Mamma keypti svo restina af BILKA og lokuðu þeir í kjölfarið fram á morgun eða hinn meðan þeir voru að fylla á tómar hillurnar. EIMSKIP er að senda tvö gámaskip undir farangurinn hennar mömmu og Icelandexpress verður með aukaflug undir handfarangurinn. Nú skil ég alveg afherju Kerla er með 8 kreditkort... 6 voru straujuð í hel og það sjöunda framdi sjálfsmorð... ég geymdi áttunda kortið því að Kerla vissi alveg á hverju var von. VISA Ísland heldur ekki árshátíðina fyrr en þeir vita að Mamma er búin að versla í útlöndum, annað væri geðveiki.
Málsháttur: Ekki bora í nefið, pillaðu það varlega.
Kveðja
JGN
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grátkast
Miðvikudagur, 17. október 2007
Ég fékk ákaft en innilegt grátkast þegar ég las það á MBL að verð á Laxi hefði stórhækkað, svo mundi ég eftir því að ég borða ekki lax nema mér sé boðið upp á hann, saug upp í nefið og harkaði af mér.
Hringdi í Mömmu áðan en hafði ekkert að segja svo mér fannst við hæfi að skella bara á.
Ég eldaði kjúklingaréttinn sem að Anna Lilja, frænka Guðbjargar, gerði fyrir okkur þegar við komum í heimsókn til þeirra hjóna á laugardag. Hann var eiginlega alveg frábær. Í staðinn fyrir kjúkling notaði ég Kalkún og kom það alls ekkert verr út.
Áttum annars rólegan og kósý dag í dag. Fórum með drengina í Toys´ R´Us og fengu þeir að velja sér eitt dót að okkar vali :) Það var glimrandi lukka. Það er nokkuð hyggeligt að vera svona í fríi, þótt maður hugsi nú töluvert um lærdóminn svona inn á milli.
Málsháttur: Sjaldan fellur gengið langt frá krónunni.
Kveðja
GN
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)