Myrkfælni og hjólatúr dauðans

Hvað á maður að gera ef litli drengurinn manns kallar á mann og segir "pabbi, það er ljótur kall í skápnum mínum" ? Og maður fer næstum á taugum og hleypur inn í sitt eigið herbergi og undir sæng og skilur litla guttann eftir alveg steinhissa. Svo kemur litli kúturinn, togar af mér sængina og heldur áfram vælinu um að hann sé hræddur við kallinn í skápnum. Ég lýt með skelfinguna uppmálaða í andlitinu og segi titrandi rómi...minntist hann nokkuð á mig?

 Hvernig skýrir maður út fyrir 5 ára dreng ef að pabbi hans kemur svo inn í herbergið hans og vekur hann með því að brölta upp í rúmið hans og segir "Ég heyrði eitthvað undir rúminu mínu"?

Ég verð að fara að taka á þessari myrkfælni í mér.

Dagurinn í dag markaði þáttaskil hjá drengjunum mínum ;) Ég reif hjálpardekkin undan reiðhjólunum þeirra svo nú á bara að læra að hjóla upp á nýtt takk fyrir. Þeir voru gríðarlega spenntir og fannst ofsagaman, þar til ýtt var úr vör ! Gabríel náði cirka 0,25 metra áður en hann henti sér grenjandi niður og sagðist aldrei geta lært þetta, þetta væri of erfitt og ..og ... og Hann náði ekki að segja meira fyrir ekka. Það gekk betur hjá Mikael og náði hann um það bil 3 metrum áður en hann kyssti gangstéttina. Hann tekur þessu meira líbó og reyndi bara strax aftur, ekki málið. Ég benti þeim hægverskur á að þegar ég var fimm ára, þá var sko enginn pabbi neitt að hjálpa mér.... eins og ég var boðinn og búinn ásamt Guðbjörgu að aðstoða þá... onei, það voru sko aðrir tímar þegar pabbi ykkar var fimm ára, hélt ég áfram, og ég skal segja ykkur frá því.

Ég bjó fyrir neðan stóra brekku í gamla daga, þegar ég var 5 ára, og einn vondan veðurdag var ákveðið að Jac litli skyldi læra að hjóla.... já sko án hjálpardekkja reyndar því það þekktist ekki að nota hjálpardekk í mínu sveitafélagi. Ef maður hefi mætt á hjálpardekkjum fyrir framan sjoppuna þá var næsta öruggt að maður hefði verið brókaður upp á enni og bundið fyrir svo hártoppurinn einn stæði uppúr. Nei það átti að kenna drengnum að hjóla "The hard way" Eins og dæmdur maður á dauðagangi á leið í rafmagnsstólinn, gekk ég með bræðrum mínum upp hæðina sem virtist vera svona kannski tveim metrum lægri en Esjan (ég var jú bara fimm).

 Upp komumst við og svo var drengnum stillt klofvega á hjólið og miðað niður hæðina... jæja, ertu tilbúinn? Leggirnir titruðu og skulfu svo mikið að það var eins og það væri verið að leika á Xílófón... gegnum glamrandi tennurnar bað ég bræður mína að skila kveðju til mömmu og systra minna, en þið fáið engar þakkir fyrir að senda mig í dauðann. Þeir litu hver á annan og sá elsti sagði...bíðið við strákar, þetta er kannski ekki svo sniðust að senda hann niður þessa bröttu brekku?

 Ég leit tárvotum augum á  stóra bróðir minn og samstundis breyttist hann í ódauðlega hetju í mínum huga.... t...ttaa tttakk takk fyrir, gat ég stunið upp, en hann heyrði ekki í mér því hann var í óða önn að benda hinum tveimur á þá staðreynd að það væri miklu stærri brekka þarna rétt hjá... og hún væri brattari og öllu hættulegri en þessi litli halli sem við stóðum í núna !

 Fljótt hvernig hetjur breytast í and-hetjur við svona uppástungur ! Þeir drösluðu mér og hjólinu, sem var 3 gíra DBS kvennareiðhjól sem þeir höfðu fundið áður en eigandinn týndi því, gagngert til þess að æfa litla bróðir í reiðhjólamennsku, upp brekku dauðans. Ef að mér fannst hin brekkan vera eins og Esjan, þá var þessi eins og Kirkjufellið við Grundarfjörð, nema hvað að það var ekki eins bratt og þessi brekka !!!

 

Á brúninni stóðum við allir 4 og horfðum niður. Þeir að meta vegalengdir og hindranir á leiðinni niður, ég að horfa yfir spegilsléttan fjörðinn og mávana sem að ég vissi að kæmu svo að kroppa í líkið af mér fyrir neðan brekkuna eftir ca 2 mínútur eða svo. Ég kvaddi lífið og tilveruna með tregablöndnum tárum og klifraði upp á hjólið samkvæmt skipun bræðra minna. Haltu fast í stýrið og reyndu að halda því beinu...ef þú ferð til vinstri þá lendirðu á stóra steininum þarna og ef þú ferð of mikið til hægri þá drukknarðu í bæjarlæknum... ég leit á bræður mína sem ég sá varla gegnum tárin og spurði aumingjalega...hvor er vinstri ?

Það kom ekkert svar, því að í sömu andrá, ýttu þeir allir fast við mér og ég hentist af stað yfir brúnina og niður brekkuna.....

Bærinn var vakinn af værum blundi þennan fallega Sunnudagsmorgun um miðjan ágúst 1975. Margir tala enn um óhljóðin sem heyrðust bergmála milli fjallana en fólk gat ekki áttað sig á hvað þetta væri eiginlega, sennilega eitthvað úr dýraríkinu eða kannski eitthvað yfirnáttúrulegt, en mannlegt var öskrið ekki !!! Það get ég vottað um því að eftir sex vikur kom röddin fyrst aftur.

Á hraða sem ég hefði ekki trúað að væri mögulegur, þeyttist ég niður hlíðina og hjólið hristist og skalf eins og Parkisonsveikur geðsjúklingur með tremma. Fyrir einhverja guðslukku stóð ég enn á hjólinu og rétt náði að sveigja framhjá stóra steininum...ahhh þetta er þá vinstri, hugsaði ég og gleymdi eitt augnablik að öskra en tók svo til óspilltra málana, fyllti lungun aftur af lofti og lét vaða og nú öllu hærra.

Ég komst lifandi niður brekkuna og enn standandi á hjólinu. Sigri hrósandi ætlaði ég svo að stoppa ... en þá mundi ég að það hafði engin talað um hvernig ætti að stoppa gripinn !?

Þegar brekkunni lauk, voru ca 5 metrar í götuna og hinumegin við hana var stórt rautt hús þar sem að Mola kerlingin átti heima. Ég leit til vinstri, enda eina áttin sem ég þekkti, og sá að það var að koma rúta eftir götunni, í átt að mér.... hjólið æddi áfram og það yrði tvísýnt um hvort ég næði yfir götuna áður en rútan kæmi. Ég æpti upp yfir mig...STOPP, en viljugur klárinn hlýddi engum fyrirmælum eða böl-bænum. Það munaði hársbreidd að rútan myndi keyra yfir mig og ég fann gustinn af hliðarspeglinum ýfa hárin í hnakkanum á mér ! Vælið í dekkjum rútunnar hverfur mér aldrei úr minni.

Yfir götuna komst ég lifandi, en ferð minni var síður en svo lokið.... Það liggja tröppur niður að húsi Mola Konunnar og hún var með opna útihurðina þar sem var að lofta út efir Sunnudagskleinubaksturinn.... hún veit ekki fyrr til en pínulítill drengur á risastóru kvennareiðhjóli, kemur á fleygiferð niður tröppurnar, inn ganginn og alla leið inn í eldhús þar sem hann klessir á bakaofninn og hendist af hjólinu, upp á eldhús-skenkinn og út um opinn gluggann !

Þarna lá ég í blómabeðinu, innan um túlípana og Gleym mér eyjar og var nokkuð viss um að ég væri kominn í himnaríki.... en rankaði við mér þegar Mola Konan kíkti út um gluggann, sá að ég var á lífi og sagði svo rólega, elskan, má ég ekki bjóða þér upp á kleinur þegar þú ert búinn að taka hjólið þitt úr ofninum mínum?

Við Mola Konan urðum miklir og góðir vinir eftir þetta, en bræður mínir skömmuðu mig hinsvegar allhressilega fyrir að hafa næstum klesst á glænýja og flotta rútu.

Þannig að þið skiljið alveg að ég ætlaði ekkert að virka harkalegur þegar ég tók hjálpardekkin af hjólum drengjanna og lét þá paufast við að æfa sig hér inni í marflötum, lokuðum garðinum... þetta var ást en ekki harka ;)

Kveðja

Jac G. Norðquist


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband