Balí... eyja Guðanna !

Við hjónin ákváðum að fara í veglega brúðkaupsferð þegar við giftum okkur. Ég orðaði það svo skemmtilega að maður ætti nú bara eftir að gifta sig tvisvar til þrisvar um ævina og þessvegna væri mikilvægt að gera það með stæl í fyrsta skiptið! Það undrar mig ennþá að elskan mín sagði svo "Já" við altarið eins asnalega og ég lét ;)

Við rúlluðum niður á Úrval/Útsýn nokkrum mánuðum fyrir brúðkaupið og skoðuðum hvað var í boði. Það var alveg klárt að sólarlandaferðir hugnuðust okkur ekki, svo hvað var í boði. ÚÚ var rétt nýbúin að skoða Balí og Malasíu sem hugsanlega áfangastaði og okkur leyst bara vel á það. Maður hafði auðvitað lesið um Balí en Kuala Lumpur í Malasíu var óþekkt stærð hjá okkur. Við smelltum inn pöntun og var ákveðið að fara strax daginn eftir brúðkaupið.

Brúðkaupið gekk svo bara eins og í sögu og við vöknuðum daginn eftir sem hjón í fyrsta skipti. Æðislegt.

Gáfum okkur tíma í morgunmat með foreldrum okkar og svo lá leiðin út  á flugvöll. Okkur til mikillar undrunar var okkur boðið upp á kampavín í vélinni en ÚÚ hafði látið Flugfélagið vita að við værum brúðarhjón í brúðkaupsferðalagi... ekkert smá sætt af þeim.

Lentum síðla dags í London og eftir nokkra töf, fundum við hvar við áttum að taka tengiflugið til Kuala Lumpur,

við ætluðum að stytta okkur leið og athuga hvort við mættum ekki sleppa við 2 kílómetra göngu innanhúss og hlaupa ca 100 metra milli tveggja hurða utanhúss.... bjartsýn en saklaus. Jæja við spurðum vopnaðan öryggisvörð hvort við mættum hlaupa þarna yfir... það var sko bara ekkert yfir flugbraut eða neitt svoleiðis heldur bara tvær hurðar á sama veggnum sjáiði til. Jæja hann fór bara að glotta og sagði "Jú jú þið megið alveg hlaupa, en ef ég næ ekki að skjóta ykkur með þessari Thompson vélbyssu, þá ná Dobermann hundarnir ykkur hér fyrir utan örugglega"! Allt í einu voru þessir 2 km bara ekkert svo svakalegir !

Við rétt náðum vélinni til Malasíu.

Eftir afar langt flug í algjörum lúxus, lentum við á glænýjum vellinum í KL. Þar beið okkar bílstjóri og keyrði okkur inn í borgina, svona ca klukkutíma ferð ef ég man rétt. Fórum meira að segja framhjá Formúlu brautinni... það gladdi mig talsvert ;)

Við áttum nokkra æðislega daga í KL, gistum á lúxussvítu á Sheraton og skoðuðum þessa skemmtilegu borg og auðvitað KL Tower. Ég mæli hiklaust með því að fólk sem á leið um Malasíu gefi sér tíma í að njóta borgarinnar. Eftir á að hyggja hefðum við viljað vera miklu lengur í Malasíu heldur en á Balí !

Svo kom að Balí, eyju guðanna.....

Við lentum á Ngurah Rai flugvellinum hjá Denpasar og beið þar líka bílstjóri eftir okkur.... takk ÚÚ :) (Hey, betra seint en aldrei).

Leiðin lá á Sheraton Nusa Indah sem liggur á lokuðu svæði á suðurströnd Balí. Nusa Dua heitir ströndin.

Hótelið var æðislegt og umhverfið algjör draumur.

Eftir að hafa komið okkur fyrir var auðvita farið inn í borgina og það helsta tekið út. Fyrsta orðið í Balísku.... var, "Jalan jalan" sem þýðir, "ég ætla að ganga takk fyrir!" Hér var fólk ekki að betla peninga heldur herjaði það á túristana með gylliboðum um akstur ! Við máttum ekki hreyfa okkur án þess að verða boðið upp á akstur ! Það var nett þreytandi en vandist svosem.

Við áttum 3 dásamlegar vikur þarna á Balí. Hittum meðal annars sjálfan Villa Vill fyrrum borgarstjóra sem var reyndar ekki einusinni að spá í stólinn á þeim tíma, og son hans, sem ég var að vinna með á þeim tíma. Algjör tilviljun að þeir dúkkuðu upp þarna og bara gaman að því.

Við skoðuðum Balí vel og vandlega og fundum ástæðuna fyrir nafngiftinni "Eyja Guðanna" !

Ég hélt alltaf að Balí hefði verið svo fögur að guðirnir hefðu gert hana að sinni ! Neibb, það var kolrangt hjá mér. Nafngiftin kemur af trúarhita fólksins sem býr á eynni ! Það eru settar litlar "fórnir" á næstum allt ! Svo, þetta eru litlar tágarkörfur, svipaðar í stærð og tveir sígarettupakkar og í þær eru settar td ávextir, kjötbiti og reykelsi. Síðan eru þessar litlu fórnir til guðanna settar í mælaborð á leigubílum, fyrir framan kóksjálfsalana, á búðarkassana, fyrir framan búðirnar og já, nánast hvar sem er.... Og svo til að fá ennþá meiri lukku og velmegun í lífinu... þá eru Balíbúar afar duglegir að sækja "Messur" og færa guðunum risastórar ávaxtafórnir og þessháttar.... semsagt, eyja guðanna út af trúarákafa, ekki fegurð !

Balí er ekkert "ljót" en við höfum líka komið á miklu fallegri staði !

Ef ég ætti að gefa hugsanlegum ferðalöngum ráð varðandi Balí..... Hmmmmm. Verið svona ca viku, mesta lagi tvær. Það er svo miklu miklu skemmtilegra td í Malasíu (að mínu mati).

Jæja, eftir Balí lá svo leiðin aftur til Malasíu og þaðan til London.

Eftir langt flugið, lá leiðin beint upp á hótel rétt við Oxfordstræti og svo var bara farið og verslað frá sér ráð og rænu. Hlutverk okkar hjóna snérist alveg við, því það var ég sem dróg konuna á milli búða með sturlunarglampa í augum og keypti eins og óður maður ! Rétt um kl 20:00 drösluðumst við upp á hótel, hlaðin pokum og létum okkar falla afturábak í rúmið. Klukkan 03 vöknuðum við svo, tókum pokana úr rúminu og afklæddum okkur ! Hahahahah við bara steinlágum takk fyrir !

Svo var það Ísland heillin og brúðkaupsferðin að baki. Heill mánuður í alsælu og lúxusumhverfi góðra hótela að baki.

Balí fær *** af fimm hjá mér.

Bestu kveðjur

Jac


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Skemmtilegt.

Gulli litli, 8.8.2008 kl. 10:38

2 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

Ég væri alveg til í svona ædislega ferd. er bara pínku abbó

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 8.8.2008 kl. 11:12

3 Smámynd: Kristín Guðbjörg Snæland

Ég efast ekki um að þetta var mjög skemmtilegt. Draumastaðurinn minn er Epyptaland, já og líka Kenýa.

Kristín Guðbjörg Snæland, 8.8.2008 kl. 12:51

4 Smámynd: Helga skjol

Helga skjol, 8.8.2008 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband