Síðbúin fóstureyðing?
Mánudagur, 14. apríl 2008
Upphafið
Fæddur er drengur
Shitt hvað hann er ljótur, þetta krípi verður aldrei að neinu, er of seint að fara í síðbúna fóstureyðingu kerling? Þessar spurningar komu frá pabba litla drengsins og voru reyndar það fyrsta sem hann heyrði þegar mamma hans tróð honum í þessa blessuðu veröld. Litli drengurinn leit á pabba sinn svo á lækninn og loks á móður sína. Eftir að hafa séð þessi gríðarlegu vonbrigði í svip þeirra allra, já meira að segja læknisins, ákvað litli drengurinn að hann skyldi aldrei nokkurntíman grenja. Læknirinn tók hann upp á fótunum og skellti á bossann. Ekki hósti eða stuna frá litla krílinu, svo læknirinn skellti aftur á bossann. Neibb, ekki múkk. Læknirinn hnykklaði brýrnar, þessi á nú eftir að verða erfiður giska ég á sagði hann við mömmu drengsins áður en hann rétti henni drenginn. Það átti nú eftir að vera rétt hjá honum en víkjum að því síðar. Þessi fjölskylda bjó í litlu sjávarþorpi á austanverðu Íslandi, litli drengurinn var fjórða barn foreldra sinna, enn einn strákurinn, þeim til lítillar gleði, enda voru þau búin að ákveða að eignast nú stúlkukind til að dekra við.
Samanbitinn í andlitinu gekk pabbi hans á braut og skellti hurðinni á fæðingadeildinni svo að glumdi um allt sjúkrahúsið. Mamma hans horfði á afturskellta hurðina tómum augum en svo leit hún aftur á litla misheppnaða krílið með útbyggðu vatnsleiðsluna en ekki innbyggða eins og þau höfðu stefnt á. Jæja, það gengur kannski betur næst sagði hún og vonbrigðin leyndu sér ekki í röddinni. Litli drengurinn fann það greinilega og átti heldur betur eftir að venjast því að heyra þennan tón í framtíðinni, bæði frá henni og föðurómyndinni. Það var komið að bræðrunum þremur að kíkja á litla krílið og fengu þeir að koma inn allir í einu að rúmi móður sinnar. Þeir voru sammála pabbanum, þetta var nú ljóta gerpið ! Mamma, eigum við ekki að fara til Hvolpa Palla og fá bara hvolp í staðinn fyrir þetta kryppildi? Sagði sá elsti. Mamman hristi hausinn og sagði þeim að vera góðum við litla krílið.Það var eins og villingarnir þrír hefðu komið sér saman um að útrýma litla gerpinu strax og þeir komu upp á spítala til að berja það augum í fyrsta sinn. Kannski fannst þeim frá upphafi að hann yrði á þeim byrði og það var eiginlega alveg rétt. Foreldrar hans gerðu sitt besta til að íþyngja þeim með ábyrgðinni á honum. Auðvitað voru þeir neyddir til að taka drenginn með hvert sem þeir fóru og það var hreinlega ekki gaman að vera með eitthvað örverpi í sífelldu eftirdragi þegar maður var í áríðandi indjánaleik eða þegar maður var útlagi að fela sig fyrir morðóðum víkíngum. Þá gat lítil mjóróma rödd orðið valdur að hreinni slátrun, þegar í miðjum leik hún bað um að fá að pissa! Haltu í þér, var eiginlega fyrsta heila setningin sem litli drengurinn lærði. Það var ærið oft sem að þeir komu heim eftir að hafa verið að leika úti og áttu að passa hann, að þeir snéru heim án hans. Hvar er litli bróðir ykkar, var spurt? Ööö er hann ekki kominn heim, var gjarnan svarið? Nei, hvernig á hann að rata heim bara þriggja ára?
Viljiði drullast út og finna krakkakvikyndið var þá öskrað innan úr stofu og drengirnir þustu út og bak við hús. Þar voru málin rædd og reynt að muna hvar litla krípið var skilið eftir síðast. Var það við gömlu olíutankana bak við ruslahaugana? Var það niðri á gömlu bryggjunni eða kannski við síldarsílóin með vatninu í? Enginn mundi það almennilega svo þeir ákváðu bara að fara út í sjoppu og kaupa nammi. Kannski yrðu mamma og pabbi búin að gleyma því að þau ættu annað barn þegar þeir kæmu til baka úr sjoppunni. Gott plan og þeir ruku út í sjoppu. Þeir mundu ekkert um það þegar þeir voru að leika niðri á gömlu bryggju og þeim fannst svo sniðugt að troða litla bróður ofan í gamla síldartunnu sem var í fjöruborðinu. Þar var hann látinn dúsa meðan þeir léku sér við hina drengina í þorpinu, allt í kringum og ofan á bryggjunni. Tunnan góða stóð upp á endann hálfpartinn undir bryggjunni. Hægt og rólega flæddi að þegar leikurinn stóð sem hæst og það tók enginn eftir því þegar síldartunnan umluktist sjó. Drengirnir héldu fjörinu áfram og færðist nú leikurinn frá gömlu bryggjunni og að stóru olíutönkunum bak við ruslahauganna, enginn mundi eftir litla kryppildinu sem sat í hnipri á botni síldartunnunnar, sem nú var komin alveg á flot og barst hægt og rólega með straumnum fram undan bryggjunni og fram fjörðinn. Litli drengurinn var með tár á hvörmum en beit saman jöxlunum, hann ætlaði sér ekki að gráta.
Magni trillukarl kom siglandi inn fjörðinn á kútter Kát eins og hann kallaði litlu trilluna sína, Hann sá síldartunnuna sem rak þarna á miðjum firðinum. Hann hægði á trillunni og tók fram stjakann. Þið getið rétt ímyndað ykkur svipinn á karli þegar hann sá hvað leyndist í tunnunni. Hann tók upp litla hlandblauta drenginn og setti hann á lestarborðin. Jæja vinur, hvaða ferðalag er á þér? Stamandi sagði litli drengurinn honum að bræður hans hefðu verið að leika í fjörunni en svo hefði hann sennilega gleymst eins og venjulega. Eftir að hafa hlustað á litla drenginn gegnum ekkann og stamið, náði hann í kók og prins póló inn í stýrishúsið og færði honum. Drengurinn maulaði á því meðan Magni lagði að bryggjunni og fór að aflesta trilluna. Ég ætla bara að klára þetta hér vinur, svo fylgi ég þér heim. Takk, sagði litli drengurinn.Bræðurnir sátu á þvottaplansveggnum, drukku spur og höfðu lakkrísrör í því. Sá elsti fær skyndilega hugljómun og án þess að átta sig á því að hann var í miðjum gúlsopa, byrjar hann að tala. Það frussaðist spur út úr nefinu á honum og hann stóð á öndinni, það tók nokkrar mínútur áður en hann gat byrjað aftur að tala. Strákar, ég er með bara frábæra hugmynd ! Hann sagði hinum tveimur frá og þeir hlupu af stað. Þeir staðnæmdust fyrir utan hjá Hvolpa Palla og bönkuðu upp á. Páll Hvalpen, hálf danski brýnarinn í frystihúsinu var með nokkra hvolpa sem hann þurfti að losa sig við. Strákarnir fengu einn gegn því að lofa að hugsa vel um hann. Þeir lofuðu og ruku svo af stað heim á leið.
Mamma, Pabbi ! Þeir komu glaðhlakkalegir inn í forstofu með litla hvolpinn í fanginu. Við erum með gjöf handa ykkur! Mamman kom fram til að athuga hvaða læti þetta væru í drengjunum og horfði hissa á hvolpinn litla. Hvað eruð þið að gera með þennan hvolp? Sko, sagði sá elsti sem var oftast í forsvari fyrir hina, þetta litla sæta hvolpagrey er í staðinn fyrir litla bróðir sem við þolum hvort sem er ekki. Þessi hvolpur er ekki sífellt að eyðileggja fyrir okkur indjánaleiki og getur pissað hvar sem er en þarf ekki að fara heim til þess. Hann er líka svo sætur, megum við ekki bara skifta á honum og litla bróðir? Allir störðu þeir nú bænaaugum á móðir sína. Ég skal nú alveg skoða það, sagði móðirin, en hvar er svo litli bróðir ykkar? Þeir litu hver á annan og áttuðu sig á að þeir höfðu alveg treyst á að hvolpurinn ylli svo mikilli lukku að drengurinn myndi gersamlega verða gleymdur, en svo virtist ekki vera raunin. Mamma, sko, sagði sá elsti, þurfum við eitthvað að vera spá í litla bróðir? Við erum með þennan fína hvolp hér og hann er bara miklu betri en litli bróðir og okkur þykir bara svo vænt um hann.
Þið eruð semsagt búnir að týna bróðir ykkar sem þið áttuð að passa? Mamma, sko það er kannski, sko, Já !? Við bara vitum ekkert eiginlega hvar hann er. Hann er einhversstaðar þar sem við settum hann eða bara annarsstaðar sem við settum hann ekki!? Þeir voru farnir að þvæla fram og tilbaka í miklu stresskasti vegna þess að það virtist ekkert ganga að selja mömmu þeirra hvolpahugmyndina. Þeir tóku að lokum eftir litla drengnum sem sat við eldhúsborðið og nartaði í kringlu og drakk mjólkurglas með. Ó er hann hérna eftir alltsaman? Sagði sá í miðið, við sögðum honum einmitt að fara heim áður en við náðum í hvolpinn sem við ætluðum að gefa honum fyrir að vera svona góður í dag.
Kveðja
Jac
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.