Vont veður og Halalaus halastjarna !!
Föstudagur, 9. nóvember 2007
Það er bara stormur í kortunum í dag og komin viðvörun "Orange" fyrir allt landið. Það á að þýða snælduvitlaust veður en við sem höfum búið hér vitum auðvitað að DMI eða Danska veðurstofan hefur aaaaldrei rangt fyrir sér !Það verður samt einkar fróðlegt að sjá hvort þeir hafi rétt fyrir sér að þessu sinni því ég sá svipaða mynd á þýsku stöðinni og þeim bara nokkuð vel saman. Ég held nefninlega að þýskararnir séu að kenna DMI sitt lítið um veður og lægðardrög.
Þetta hér að ofan skrifaði ég í morgun, en ákvað að bíða með að birta það og sjá hvernig þetta blessaða veður þróaðist.... skemmst frá því að segja að hér í Odense bærðist varla hár á höfði, en á Stórabeltisbrúnni valt vörubíll í einni hviðunni ! Eða var hann bara fullur ?
Það er Verkefnavika hjá mér í skólanum og er ég búinn að vera upp að öxlum í verkefnavinnu. Það er búið að ganga rosalega vel þrátt fyrir að ég hafi fengið eina verstu grúppuna til liðs við mig.... það héldu og halda reyndar allir ennþá nema hvað að grúppan mín er bara búin að standa sig frábærlega ! Við erum búin að klára Project A með stæl !!! Ég verð afar hissa ef við náum ekki þokkalegri einkunn fyrir það.
Við hjónin stóðum úti á palli í gærkvöld og vorum að horfa sem oftar á stjörnurnar. Ég benti Guðbjörgu á hala-lausu halastjörnina en Þessa dagana er óvenjuleg halastjarna sýnileg á himni. Halastjarna þessi, sem kennd er við Holmes, fannst árið 1892 og gengur um sólina milli brauta Mars og Júpíters. Að jafnaði er hún svo dauf að hún sést ekki nema í öflugustu sjónaukum. Hinn 24. október blossaði hún skyndilega upp svo að ljósmagnið jókst nær milljónfalt, frá birtustigi 17,5 til 2,5 eða þar um bil. Halastjarnan er stödd í stjörnumerkinu Perseusi, skammt frá björtustu stjörnunni í merkinu og er alltaf ofan sjónbaugs á Íslandi og Danmörku. Hún sést auðveldlega með berum augum, en fljótlegra er að finna hana með litlum handsjónauka. Fyrri hluta kvölds er hún í norðaustri til austurs, hátt á lofti. Í sjónauka sést ljóshnoðri, og er það haddurinn (coma), rykhjúpur sem umlykur kjarnann. Haddurinn fer stækkandi og er hann bara um milljón kílómetrar í þvermál !!! Enginn hali hefur sést enn sem komið er, en þess ber að gæta að halinn stefnir ávallt frá sól, og í þessu tilviki færi hann nærri sjónlínu, bak við halastjörnuna. Ekki er vitað hvernig stendur á hinni gríðarlegu birtuaukningu, en saga halastjörnunnar er frekar athyglisverð finnst mér.
Það var Englendingurinn Edwin Holmes sem uppgötvaði þessa halastjörnu. Hún var áður fyrr skráð undir heitinu 1892 III eða 1892 h, en í núgildandi skráningarkerfi heitir hún 17P/Holmes þar sem P merkir umferðarhalastjörnu (e. periodic comet), þ.e. halastjörnu sem sést hefur oftar en einu sinni, og talan 17 merkir að hún sé sú sautjánda þeirrar tegundar. Þegar Holmes fann hana var hún álíka björt og Andrómeduþokan, á bilinu 3-4 að birtustigi, en dofnaði ört á næstu vikum. Í fyrstu sást lítill hali, og um tíma sást aukahnoðri utan við haddinn og kjarninn sýndist klofinn. Fljótlega dofnaði halastjarnan og varð of dauf til að sjást með berum augum, en um miðjan janúar 1893 blossaði hún upp aftur, og var þá hægt að greina hana án sjónauka í eina eða tvær vikur. Umferðartími hennar um sól er um það bil sjö ár, og hún sést best þegar hún er næst jörðu. Hún sást næst árið 1899 og aftur árið 1906, en í bæði skiptin var hún afar dauf og greindist aðeins í góðum sjónaukum. Síðan týndist hún og fannst ekki aftur fyrr en eftir mikla leit og útreikninga árið 1964. Eftir það hafa menn séð hana á sjö ára fresti, en hún hefur verið afar dauf þar til nú, að hún blossar upp á nýjan leik eftir öll þessi ár.
Braut halastjörnunnar Holmes er ekki hringlaga; minnsta fjarlægð hennar frá sól er 2,1 stjarnfræðieining en mesta fjarlægð 5,2 stjarnfræðieiningar. Brautin er talsvert breytileg vegna truflana frá reikistjörnunni Júpíter. Fjarlægð halastjörnunnar frá jörðu er sem stendur 1,6 stjarnfræðieining. Hún hreyfist hægt á himni og verður í stjörnumerkinu Perseusi næstu mánuði. Hér er svo mynd af fyrirbærinu
Ekkert smá falleg halalaus halastjarna, reyndar er halinn farinn að sjást aðeins og á eftir að koma betur í ljós síðar. (uppl. og mynd tekið af almanak háskólans)
Málsháttur: Oft fýkur í menn sem gera veður útaf öllu.
Kveðja
JGN
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.